Enski boltinn

Man United á eftir fleiri Hollendingum en De Ligt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joshua Zirkzee fagnar einum af sigrum hollenska landsliðsins á Evrópumótinu í Þýskalandi.
Joshua Zirkzee fagnar einum af sigrum hollenska landsliðsins á Evrópumótinu í Þýskalandi. Getty/Inaki Esnaola

Manchester United er sagt vera komið langt í viðræðum um kaup á hollenska framherjanum Joshua Zirkzee.

Zirkzee átti mjög gott tímabil með Bologna á Ítalíu á síðustu leiktíð en hann skoraði tólf mörk og hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í Meistaradeildinni.

Samkvæmt heimildum ESPN þá er United búið að ná samkomulagi við leikmanninn um kaup og kjör. Fabrizio Romano segir líka frá því að United sé á góðri leið með að klára kaupin.

Næst á dagskrá er að ganga frá kaupverðinu en það er hægt að kaupa Zirkzee út úr samningi sínum við ítalska félagið fyrir fjörutíu milljónir evra. United gæti þó reynt að ná þeirri upphæð niður.

Þessi 23 ára gamli framherji er í hollenska EM-hópnum og kom inn á sem varamaður í sigrinum á Tyrkjum í átta liða úrslitunum.

United er líka sagt hafa áhuga á framherjunum Jonathan David hjá Lille og Ivan Toney hjá Brentford. Á dagskránni í sumar er að kaupa framherja, miðjumann og miðvörð.

Man United hefur verið duglegt að kaupa hollenska leikmenn eða leikmenn sem spila í Hollandi síðan að Erik ten Hag varð knattspyrnustjóri. Það virðist ekki vera að breytast.

United er nefnilega í sambandi við Bayern München um kaup á hollenska miðverðinum Matthijs de Ligt. De Ligt er í EM-hóp Hollendinga en hefur ekki fengið eina einustu mínútu á mótinu. De Ligt hefur sýnt áhuga á að komast til United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×