Bretinn er aðeins nítján ára gamall og kemur úr ökumanns akademíu Ferrari. Hann vakti gríðarlega athygli fyrr á yfirstandandi tímabili er hann þurfti að leysa Spánverjann Carlos Sainz af hólmi í Sádi-Arabíu kappakstrinum með mjög skömmum fyrirvara.
Á hinni krefjandi braut sem boðið er upp á í Sádi-Arabíu í Formúlu 1 mótaröðinni endaði Bearman í sjöunda sæti sem skilaði sér í sex stigum, bæði fyrir hann og Ferrari.
Bearman þekkir umhverfið hjá Haas vel en liðið er vel tengt Ferrari og hefur Bretinn fengið að spreyta sig á æfingum Haas á yfirstandandi tímabili samhlíða því að keppa í Formúlu 2 mótaröðinni.
Ljóst þykir að Bearman gæti látið til sín taka í Formúlu 1 í framtíðinni og ætti það ekki að koma á óvart ef hann endar á einhverjum tímapunkti aftur hjá Ferrari sem einn af aðalökumönnum liðsins.
„Hann er Jude Bellingham Formúlu 1 heimsins,“ segir Craig Slater, einn af Formúlu 1 sérfræðingum Sky Sports en Bellingham er, þrátt fyrir að vera ungur að árum, skærasta stjarna enskrar knattspyrnu og leikmaður Real Madrid.
„Hann (Bearman) varð nítján ára í maí síðastliðnum og er yngsti Bretinn til þess að keppa í Formúlu 1 því að hann var aðeins átján ára gamall er hann keppti í fyrsta sinn í mótaröðinni fyrir Ferrari í Sádi-Arabíu fyrr á árinu.“
Framtíðin sé mjög björt fyrir Bretann unga.
„Maður býst við því að metnaður hans snúi að því að hann vilji snúa ftur til Ferrari á einhverjum tímapunkti, keppast um sigur og heimsmeistaratitla.“