Fastlega er búist við sigri Verkamannaflokksins með Keir Starmer í broddi fylkingar og jafnvel búist við stórsigri. Nýr flokkur, hægriflokkurinn Reform, eða Umbótaflokkurinn er einnig að mælast vel á landsvísu en þó er ekki talið líklegt að flokkurinn fái marga þingmenn, en í Bretlandi er svokallað einmenningskjördæmakerfi þannig að aðeins sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í hverju kjördæmi kemst á þing.
Síðasta skoðannakönnunin sem gerð var fyrir kjördag bendir til þess að sextán núverandi ráðherrar Íhaldsflokksins muni detta út af þingi og sjálfur forsætisráðherrann er í hættu á því að komast ekki á þing.
Bjartsýnustu spár fyrir Verkamannaflokkinn benda jafnvel til þess að flokkurinn gæti náð stærsta meirihluta á breska þinginu frá árinu 1832.