„Það er ólgutímabil að baki hjá okkur, aldrei dauð stund í Manchester,“ sagði Ten Hag í viðtali við hollenska miðilinn Studio Fußball.
„Þeir komu allt í einu til mín og sögðu að þeir vildu halda mér. Eins og í öllum félögum litu þeir í kringum sig og nýju eigendurnir tóku sinn tíma. Þetta sögðu þeir mér, það er ekkert leyndarmál að þeir töluðu við fjölda kandídata en niðurstaðan varð að besti mögulegi maðurinn væri nú þegar í starfinu,“ hélt hann svo áfram.
Ten Hag fór í sumarfrí til Ibiza eftir sigur Manchester United í FA bikarnum í lokaleik tímabilsins. Stjórnarmenn félagsins flugu til hans og funduðu þar.
Starf Ten Hag hefur verið í hættu síðan INEOS, fjárfestingahópur Jim Ratcliffe, gekk frá minnihlutakaupum og tók yfir rekstur félagsins.
Samningur hans gildir fram út næsta tímabil, með möguleika á eins árs framlengingu. Viðræður um framlengingu munu eiga sér stað á næstunni.