Róbert hefur mörg undanfarin ár verið einn besti varnarmaður Olís-deildarinnar en fyrir ári síðan ákvað hann að reyna fyrir sér í atvinnumennsku.
Hann samdi þá við norska liðið Drammen en ákvað á dögunum að nýta sér uppsagnarákvæði í tveggja ára samningi sínum við félagið.
Ástæðan var sú, samkvæmt heimasíðu Drammen, að hann vildi vera nær kærustu sinni, landsliðskonunni Andreu Jacobsen, en hún er á leið til Blomberg Lippe í Þýskalandi. Vestmannaeyjar eru talsvert fjær Blomberg en Drammen.
Í gær greindi Kári Kristján Kristjánsson frá því að hann ætlaði sér að taka eitt ár í viðbót með ÍBV en hann er að verða fertugur.
ÍBV samdi svo við Kristófer Ísak Bárðarson í vikunni en það er ung og efnileg skytta sem kemur frá HK. Í lok maí samdi félagið við króatísku skyttuna Marino Gabrieri þannig að Eyjamenn virðast ætla sér stóra hluti líkt og oft áður.