„Ég er staðráðinn í að einn daginn muni leikir í ensku úrvalsdeildinni vera spilaðir í New York borg,“ sagði Werner í viðtali við Financial Times.
„Ég sé jafnvel fyrir mér, frekar klikkaða hugmynd, að einn daginn gætum við spilað leik í Tókýó, einn í Los Angeles nokkrum klukkutímum seinna, einn leik enn síðar í Rio [de Janeiro], einn leik í Ríad [Sádi-Arabíu]. Gera okkur glaðan dag þar sem ensku úrvalsdeildinni er fagnað um allan heim,“ hélt hann svo áfram.
Hann studdi hugmyndir sínar svo með því að segja að stuðningsmönnum liðanna yrðu boðin flug og gisting á góðu verði.
Hugmyndin er svosem ekki ný af nálinni en hefur verið haldið hátt á lofti undanfarið eftir að mál Relevant Sports gegn FIFA var fellt niður og sambandið opnaði hug sinn.
Framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, Richard Scudamore, reyndi ítrekað á árunum 2008–14 að hrinda í framkvæmd 39. leik tímabilsins, sem hefði farið fram samtímis í fimm mismunandi stórborgum utan Bretlands.
Lið ensku úrvalsdeildarinnar hafa líka í auknum mæli undanfarin ár leitað til Bandaríkjanna á undirbúningstímabilinu. Síðasta sumar var sett á fót Premier League Summer Series, þar sem nokkur félög spiluðu vináttumót í borgum Bandaríkjanna.
Þá hefur Aleksander Ceferin, forseti UEFA, lýst yfir stuðningi við þá hugmynd að halda leiki í Meistaradeildinni eða Ofurbikarnum utan Evrópu.