Arsenal er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 86 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City. Í lokaumferðinni á morgun mætir Arsenal Everton á meðan City etur kappi við West Ham.
Knattspyrnustjóri West Ham er David Moyes en þeir Arteta þekkjast vel. Spánverjinn lék undir stjórn Skotans hjá Everton á árunum 2005-11. Og nú þarf hann hjálp frá sínum gamla stjóra.
„David Moyes hefur verið mikilvægur fyrir ferilinn minn. Ekki bara sem fótboltamaður heldur einnig sem manneskja. Það væri ótrúlegt ef hann gæti hjálpað okkur að upplifa draum minn og okkar að verða Englandsmeistarar og ég gleymi honum aldrei. Það er ljóst,“ sagði Arteta.
„Vonandi gerist eitthvað dásamlegt. Englandsmeistarabikarinn hefur ekki enn komið á Emirates og hann var byggður fyrir næstum tuttugu árum. Það er langur tími. Við verðum að vera bjartsýnir. Ef draumurinn á að rætast verðum við að vinna. Það er ljóst. Svo þurfum við að vonast eftir hjálp frá West Ham til að draumurinn rætist.“
Moyes stýrir West Ham í síðasta sinn í leiknum gegn Arsenal á morgun. Hann hefur þjálfað liðið síðan í árslok 2019.