Luton er ekki formlega fallið en þarf að vinna Fulham í lokaumferðinni, treysta á að Nottingham Forest tapi síðustu tveimur leikjum sínum, og síðast en ekki síst vinna upp 13 marka forskot Forest í markatölu.
Luton komst reyndar yfir á London-leikvanginum í dag, með skallamarki Albert Sambi Lokonga, en í seinni hálfleik skoruðu James Ward-Prowse, Tomas Soucek og George Earthy og tryggðu Hömrunum langþráðan sigur.
Burnley féll eftir 2-1 tap gegn Tottenham, eins og fjallað hefur verið um.
Sheffield United var þegar fallið og tapaði 1-0 fyrir Everton á útivelli, þar sem Abdoulaye Doucoure skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.
Sheffield sló óvinsælt met en liðið hefur fengið á sig 101 mark í deildinni á þessari leiktíð, fleiri en nokkurt lið hefur gert í sögu úrvalsdeildarinnar.
Sheffield United have set the record for most goals conceded in a Premier League season 😬#EVESHU pic.twitter.com/n0YydEybBF
— BBC Sport (@BBCSport) May 11, 2024
Newcastle varð að sætta sig við 1-1 jafntefli við Brighton í baráttunni um Evrópusæti, þar sem Sean Longstaff jafnaði metin rétt fyrir hálfleik eftir að Joel Veltman hafði komið Brighton yfir. Newcastle er með 57 stig í 6. sæti, þremur stigum fyrir ofan Chelsea og Manchester United sem nú eiga leik til góða.
Crystal Palace vann 3-1 sigur á Wolves og Brentford hafði betur gegn Bournemouth á útivelli, 2-1.