Reglur enska knattspyrnusambandsins í þessum efnum eru skýrar og er farið yfir stöðuna í umfjöllun á vegum The Athletic. Fari svo að knattspyrnustjóri safni saman þremur gulum spjöldum fer hann sjálfkrafa í eins leiks bann. Verði gulu spjöldin svo sex talsins á einhverjum tímapunkti, á meðan á tímabilinu stendur, fer umræddur stjóri í tveggja leikja bann.
Eftir því sem gulu spjöldunum fjölgar verður refsingin svo þyngri og þyngri og sértu snælduvitlaus á hliðarlínunni og safnar saman tólf gulum spjöldum er ljóst að þú verður dreginn fyrir dóm knattspyrnusambandsins og átt yfir höfði þér ákæru fyrir misferli.
Góðu fréttirnar fyrir stuðningsmenn Liverpool eru hins vegar þær að Klopp, sem hefur fengið að líta tvö gul spjöld á tímabilinu, er meðvitaður um stöðuna og mun reyna sitt allra besta í því að halda sig á mottunni í komandi leik gegn Aston Villa.
„Ég hef verið meðvitaður um stöðuna til lengri tíma núna,“ segir Klopp aðspurður um stöðu sína á tveimur gulum spjöldum og mögulegt bann með einu slíku til viðbótar. „Við gætum snúið þessu við og sagt að ég hafi aðeins fengið tvö gul spjöld á tímabilinu. Nokkrir af kollegum mínum hafa verið settir í bann er það ekki?
Ég hef róast með árunum. Ég þarf svo sem ekki að vera á hliðarlínunni á lokadegi tímabilsins en það væri kúl. Ég mun reyna mitt allra besta til að blandast ekki í einhverjar deilur.“
Margir á hættusvæði
Jurgen Klopp er ekki eini knattspyrnustjóri deildarinnar sem þarf að feta veg góðrar háttsemi og stillu til að koma í veg fyrir bann í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Knattspyrnustjórar á borð við Mikel Arteta hjá Arsenal, David Moyes hjá West Ham, Ange Postecoglou hjá Tottenham, Thomas Frank hjá Brentford, Andoni Iraola hjá Bournemouth, Gary O´Neil hjá Wolves og Nuno Espirito Santo hjá Nottingham Forest eru allir á hættusvæði með tvö gul spjöld á bakinu.
Þá er Roberto De Zerbi á hættusvæði með fimm gul spjöld á bakinu. Eitt til viðbótar sendir hann í tveggja leikja bann.