Það eru liðin 22 ár síðan Ipswich spilaði í deild þeirra bestu eða frá 2001-02 tímabilinu.
Ipswich nægði bara eitt stig til að fylgja Leicester City upp í úrvalsdeildina en Leicester höfðu tryggt sér sigur í deildinni fyrir nokkru.
Wes Burns (27. mínúta) og Omari Hutchinson (48. mínúta) skoruðu mörk Ipswich í leiknum. Ipswich er að vinna sig upp um deild annað árið í röð því liðið var í ensku C-deildinni tímabilið 2022-23.
Það verður síðan spilað um þriðja og síðasta sætið í umspilinu en þangað komust Leeds, Southampton, West Brom og Norwich.
Huddersfield féll úr deildinni ásamt Rotherham og Birmingham. Birmingham hefur ekki verið neðar í þrjá áratugi. Birmingham vann 1-0 sigur á Norwich en það dugði ekki til þar sem að Plymouth vann á sama tíma 1-0 sigur á Hull.
Liðin sem enda í 17. til 22. sæti deildarinnar unnu öll leiki sína í lokaumferðinni og langneðsta liðið, Rotherham, vann 5-2 sigur á Cardiff City.