Tonali var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið bann sem tekur ekki gildi nema hann gerist aftur brotlegur á veðmálareglum. Leikmaðurinn verður því aftur gjaldgengur til leiks þann 27. ágúst 2024 líkt og upprunalegi dómurinn kvað upp.
Newcastle keypti Tonali á 55 milljónir punda frá AC Milan síðasta sumar. Í lok október 2023 var hann svo dæmdur í 10 mánaða bann frá fótbolta af ítalska knattspyrnusambandinu eftir að hafa veðjað á eigin leiki. Tonali játaði sök og var samvinnufús við rannsókn málsins.
Í kjölfar þess hóf enska knattspyrnusambandið rannsókn á veðmálum Tonali og komst að því að hann hefði veðjað á eigin leiki eftir að hafa gengið til liðs við Newcastle.
Í skýrslu sambandsins segir að Tonali hafi lagt 40-50 veðmál og þar af allt að fjögur veðmál á eigin leiki, öll voru þau sett á sigur Newcastle.
Slúðurblaðið Daily Mail greinir frá því að Tonali hafi veðjað allt að 10.000 sterlingspundum í hvert skipti og samanlagt hafi hann lagt undir meira en 100.000 pund, sem gera um 17,5 milljónir króna.
Tonali er sagður iðrast gjörða sinna og hefur sótt sér hjálpar við veðmálafíkn. Newcastle lýsti yfir fullum stuðningi við leikmanninn í þeirri baráttu.