Það er The Athletic sem greinir frá en undir stjórn Emery hefur Aston Villa blómstrað á yfirstandandi tímabili. Aston Villa er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og er einnig komið í undanúrslit Sambandsdeildar Evrópu.
Emery tók við stjórnartaumunum á Villa Park í október árið 2022. Hann er raðsigurvegari í Evrópu eftir tíma sinn hjá liðum á borð við Villarreal og Sevilla, hefur unnið Evrópudeildina fjórum sinnum á sínum ferli.
The Athletic greinir svo enn frekar frá því að forráðamenn Aston Villa vilji síðan setjast aftur niður með Emery eftir yfirstandandi tímabil í þeirri von um að geta framlengt veru hans hjá félaginu lengur en til ársins 2027.
Aston Villa er sem stendur í 4.sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem mun gefa þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Liðið er þar með sex stiga forskot á Tottenham Hotspur, sem vermir 5.sæti, en á tvo leiki til góða á Aston Villa.
Framundan er því spennandi barátta um 4.sætið í lokaumferðum ensku úrvalsdeildarinnar.