Carlos var ráðinn sem aðstoðarþjálfari Selfoss í fyrrasumar, eftir að hafa hætt hjá Herði á Ísafirði, og hefur einnig stýrt 3. flokki og U-liði Selfyssinga í vetur. Nú tekur hann hins vegar við sem aðalþjálfari en þetta kom fram í Selfoss Hlaðvarpinu í dag.
„Við þekkjum hann orðið eftir þetta ár, og hann þekkir leikmenn og deildina. Hann er algjör handboltaheili og ég er mjög spenntur að sjá hann vinna með strákunum. Það verða örugglega einhverjar breytingar og góðar æfingar hjá honum,“ sagði Þórir, nú forveri Carlos, sem var gestur í þættinum.
Þórir náði ekki að afstýra því að Selfyssingar féllu niður úr Olís-deildinni í vor en þeir enduðu í tólfta og neðsta sæti með átta stig, fimm stigum frá næsta örugga sæti.
Selfoss mun því leika í Grill 66-deildinni á næstu leiktíð og freista þess að vinna sér aftur sæti í deild þeirra bestu.