Fótbolti

Kristian þarf sigur á Eng­landi en Hákon í toppmálum

Sindri Sverrisson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson á ferðinni í leiknum við Aston Villa í kvöld.
Kristian Nökkvi Hlynsson á ferðinni í leiknum við Aston Villa í kvöld. Getty/Maurice Van Steen

Staðan er misgóð hjá félögunum úr íslenska landsliðinu í fótbolta, þeim Hákoni Arnari Haraldssyni og Kristiani Nökkva Hlynssyni, í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta.

Hákon Arnar og félagar í Lille eru í frábærri stöðu eftir 3-0 útisigur gegn Sturm Graz í Austurríki í kvöld, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitunum.

Hákon var í byrjunarliði Lille og átti til að mynda þrumuskot í þverslá þegar hinn kanadíski Jonathan David skoraði seinna mark sitt í leiknum, eftir fimmtíu mínútna leik. 

Þriðja markið skoraði Edon Zhegrova þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en þá var Hákon farinn af velli.

Kristian og félagar í Ajax mættu funheitu liði Aston Villa í Hollandi og gerðu liðin markalaust jafntefli í frekar tíðindalitlum leik.

Kristian fór af velli á 80. mínútu en eftir það fór rauða spjaldið tvisvar á loft. Fyrst fékk Ezri Konsa sitt annað gula spjald en Ajax var manni fleira í aðeins fimm mínútur því að Tristan Gooijer fór sömu leið.

Seinni leikirnir fara fram eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×