Valsmenn tryggðu sér sæti í úrslitaleik Powerade-bikarsins með sannfærandi sigri á Stjörnunni í undanúrslitum í gær. Það voru þó ekki bara gleðitíðindi í leiknum. Reynsluboltinn Alexander Petersson meiddist í leiknum og er samkvæmt Óskari Bjarna Óskarssyni, ólíklegur til þátttöku í úrslitaleik morgundagsins gegn ÍBV.
„Hann fer í frekari skoðun í dag,“ segir Óskar Bjarni í samtali við Vísi. „Ég veit ekki nákvæmlega stöðuna á honum eins og er. Hann er bara ólíklegur til þess að taka þátt í úrslitaleiknum á morgun.“
Ekki er um að ræða hnémeiðsli eins og einhverjir voru farnir að óttast um. Heldur er um að ræða meiðsli á ökkla.
„Hnéð hélt ágætlega hjá honum. Það var búið að hvíla hann vel eftir smá hnjask í leiknum úti í Serbíu á dögunum eftir tuttugu mínútna leik en hann kláraði þó þann leik. Hann fær þarna eitthvað högg á ökklann í gær og er bara ólíklegur til þátttöku í framhaldinu.
Þetta er nú mesti járnkarl sem ég þekki. Hann ætlaði að byrja seinni hálfleikinn þó hann gæti ekki gengið. Við vitum náttúrulega bara meira í dag en ég held að hann sé ólíklegur í úrslitaleikinn með okkur á laugardaginn karlgreyið.
Ökklinn var ekkert rosalega bólginn í gær þegar að tekið var smá stöðutékk en svo veit maður ekkert rosalega mikið svona rétt eftir leik. Hann er bara ágætlega brattur sjálfur. Sjáum bara hvað þessi dagur leiðir í ljós.“