Haaland var bara með þrjú mörk í fyrstu sjö leikjum sínum eftir að hann sneri til baka eftir meiðsli. Það þykir ekki mikið á þeim bænum.
Hann missti af meira en mánuði vegna meiðslanna og hefur fengið sinn skammt af gagnrýni fyrir frammistöðuna í sumum leikjum. Mótherjar Manchester City geta farið að svitna eftir að hafa séð Norðmanninn upp á sitt besta í gærkvöldi.
Haaland varð í gær sá fyrsti til að skora fimm mörk í bikarleik síðan að George Best skoraði sex mörk fyrir Manchester United í sigri á Northampton Town árið 1970.
„Ég er að komast í mitt besta form,“ sagði Erling Haaland við ITV eftir leikinn. ESPN segir frá.
„Loksins líður mér vel. Þetta er yndisleg tilfinning. Þetta er að koma hjá mér og við erum að koma. Spennandi tímar fram undan. Við erum tilbúnir til að sækja,“ sagði Haaland.
Þetta er önnur fimma Haaland fyrir City því hann skoraði einnig fimm mörk fyrir liðið á móti RB Leipzig í Meistaradeildinni í fyrra. Haaland hefur nú skorað 79 mörk í 83 leikjum fyrir félagið.
Kevin De Bruyne átti stoðsendinguna á hann í fjórum fyrstu mörkunum.
„Það er unaðslegt að spila með honum. Ég held að við vitum báðir hvað við viljum frá hvorum öðrum. Við horfum bara á hvorn annan og allt smellur,“ sagði Haaland.
Erling Haaland was on FIRE in the #EmiratesFACup fifth round pic.twitter.com/ZFaLiSZRs3
— Emirates FA Cup (@EmiratesFACup) February 27, 2024