Aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar hafa velt vöngum yfir fögnuði þjálfara liða í deildinni. Grín var gert að Mikel Arteta fyrir að offagna sigri gegn Liverpool. Jurgen Klopp var svo sjálfur skotspónn grínista í netheimum þegar hann gekk hring um völlinn og fagnaði sigri gegn Luton í vikunni.
Klopp fist pumps for all four sides of Anfield ❤️ pic.twitter.com/WqA8C6H3AZ
— Liverpool FC (@LFC) February 21, 2024
„Ég heyrði af þessu, með Mikel [Arteta], að hann hafi fagnað of mikið eftir leik gegn okkur. Þau skilaboð komu allavega ekki frá mér. Það mega allir það sem þeim sýnist, mér er drullusama hvað öðrum finnst um það, þú mátt skrifa það“ sagði Klopp í viðtali við blaðamann.
Eins og áður segir mætast Liverpool og Chelsea síðar í dag í úrslitaleik deildarbikarsins, þau mættust einnig í úrslitaleikjum FA og deildarbikarsins árið 2022.
„Ég vil vinna – ekki fyrir mig og minn verðlaunaskáp, heldur fyrir strákana, fyrir klúbbinn. Það er mun mikilvægara. Leikirnir gegn Chelsea fyrir tveimur árum voru með betri fótboltaleikjum sem ég hef séð. Sturlaðir leikir með frábærum vítaspyrnukeppnum, þannig eiga úrslitaleikir að vera.“
Leikurinn hefst klukkan 15:00 á Wembley leikvanginum í London og verður í beinni útsendingu, sem hefst klukkan 14:15, á Vodafone Sport auk textalýsingar á Vísi.