Maidstone sló League One liðið Stevenage úr leik í síðustu umferð, sem þótti ótrúlegur árangur. Fáir bjuggust við sigri gegn Ipswich, sem situr í 2. sæti Championship deildarinnar, næstefstu deild Englands.
Lamar Reynolds skoraði fyrsta mark leiksins á 43. mínútu með vippu yfir markvörð Ipswich. Þetta var fyrsta mark Reynolds fyrir félagið.
Jeremy Sarmiento jafnaði metin fyrir heimamenn snemma í fyrri hálfleik en Sam Corne skoraði sigurmark leiksins fyrir Maidstone á 66. mínútu eftir góðan undirbúning fyrri markaskorarans Lamar Reynolds.
Ipswich komst hársbreidd frá því að jafna leikinn og tryggja endurtekningu í uppbótartíma, en boltinn vildi ekki í netið og Maidstone hampaði sigri.
George Elokobi þjálfar Maidstone. Elokobi spilaði með Wolves um árabil frá 2008–14 við góðan orðstír. Hann átti sér stóran aðdáendahóp á Íslandi sem haldið var uppi af Hjörvari Hafliðasyni og Guðmundi Benediktssyni, þáttastjórnendum Sunnudagsmessunar, umfjöllunarþætti um ensku úrvalsdeildina.
Ekki kallaður Bikarkobi fyrir ekki neitt. https://t.co/EFn6O1X8j7 pic.twitter.com/uhv0qzAdkf
— Valur Páll Eiríksson (@vpeiriksson) January 6, 2024
Eins og áður segir er Maidstone komið áfram í fjórðu umferð eða 32-liða úrslit FA bikarsins. Bournemouth og Manchester City hafa einnig tryggt sér sæti.
Dregið verður seinni part dags á morgun og þá mun næsti andstæðingur Maidstone liggja fyrir.
Mörkin má sjá í spilaranum að ofan í lýsingu Kristins Kjærnested af Stöð 2 Sport.