Fótbolti

Jónatan Ingi að ganga til liðs við Val

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jónatan Ingi Jónsson er leikmaður Sogndal í Noregi.
Jónatan Ingi Jónsson er leikmaður Sogndal í Noregi. Sogndal

Kantmaðurinn Jónatan Ingi Jónsson er að ganga í raðir Vals fyrir komandi tímabil í Bestu-deild karla í knattspyrnu.

Það er Dr. Football Podcast sem fullyrðir tíðindin á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, en einnig var greint frá líklegum vistaskiptum Jónatans á netmiðlinum 433.is. Á Fótbolti.net segir þó að ekki sé frágengið að leikmaðurinn gangi í raðir Vals, en það sé þó alls ekki útilokað að leikmaðurinn endi þar.

Jónatan, sem er 24 ára kantmaður, er eins og staðan er núna leikmaður Sogndal í Noregi. Þar hefur hann leikið undanfarin tvö ár, eða síðan hann gekk í raðir félagsins frá uppeldisfélagi sínu, FH.

Valsmenn hafa verið í leit að kantmanni í vetur og leit lengi vel út fyrir að félagið myndi krækja í Aron Bjarnason, en hann endaði að lokum hjá Breiðablik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×