Elísabet hætti hjá Kristianstad að loknu síðasta tímabili eftir að hafa verið við stjórnvölinn þar síðustu fimmtán árin. Síðan þá hefur hún verið án starfs en á dögunum var hún meðal annars orðuð við landsliðsþjálfarastöðu Noregs.
Í dag greinir SVT hins vegar frá því að Elísabet gæti tekið við starfi knattspyrnustjóra Chelsea. Í frétt miðilsins kemur fram að Elísabet sé ein af þremur sem komi til greina í starfið og að hún hafi nú þegar hitt forráðamenn liðsins í London.
Emma Hayes hættir með Chelsea eftir tímabilið og tekur við bandaríska landsliðinu. Casey Stone sem stýrir San Diego Wave og Laura Harvey knattspyrnustjóri Seattle Reign eru einnig á lista Chelsea yfir mögulega eftirmenn Hayes.
SVT segir að Elísabet hafi ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Chelsea er stórveldi í ensku kvennadeildinni. Liðið hefur unnið enska meistaratitilinn síðustu fjögur ár og bikarinn síðustu þrjú. Liðið hefur á að skipa gríðarlega sterkum leikmannahópi og væri afar áhugavert að sjá Elísabetu spreyta sig á einu stærsta sviði kvennaboltans.