Á árinu 2023 var aðeins brotið oftar á tveimur leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni en Saka; Jordan Ayew hjá Crystal Palace og Bruno Guimaraes hjá Newcastle United. Alls var 87 sinnum brotið á Saka.
Arsenal-mönnum fannst dómarar ensku úrvalsdeildarinnar ekki taka nógu hart á brotum á Saka og kvörtuðu til dómarasamtaka deildarinnar vegna þess.
Arsenal-menn tiltóku sérstaklega að dómarar ættu að spjalda andstæðinga fyrir fyrsta grófa brotið á Saka, í stað þess að bíða eftir öðru broti.
Saka skoraði í síðasta leik Arsenal, 2-1 tapi fyrir Fulham á gamlársdag. Hann hefur skorað sex mörk og gefið sex stoðsendingar í nítján deildarleikjum með Arsenal á tímabilinu. Skytturnar eru í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjörutíu stig, fimm stigum á eftir toppliði Liverpool.
Saka og félagar hans í Arsenal mæta Liverpool í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn.