Þjófar brutust inn á heimili Jack Grealish í vikunni en Grealish er leikmaður Manchester City og enska landsliðsins. Tíu fjölskyldumeðlimir Grealish voru heima þegar brotist var inn og var þyrla lögreglunnar meðal annars kölluð út af ótta við að fólk yrði tekið sem gíslar.
Þjófarnir komust undan með skartgripi að verðmæti 170 milljónir króna.
Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City ræddi atvikið á blaðamannafundi fyrir leik City og Sheffield United sem fram fer í dag og hann sagði þessi mál vera erfið.
„Leikmennirnir eru með öryggisgæslu. Því miður gerðist þetta og þetta hefur gerst oft áður. Líka hjá leikmönnum Manchester United. Þetta hefur líka gerst í London. Í dag þarftu að fara varlega,“ sagði Guardiola og minnist líka á samfélagsmiðlanotkun leikmanna.
„Ekki setja mikið á samfélagsmiðla. Því minna sem þeir vita um hvað þú ert að gera, því betra. Fólk er að bíða, bíða eftir því að sjá hvar þú ert. Það er mikil stéttaskipting. Það er fólk með mikið af peningum og fólk í vandræðum.“