Salah, Mané og Firmino mynduðu magnað sóknartríó hjá Liverpool. Salah og Mané var ekki alltaf sammála eða sáttir við hvorn annan eins og í leik gegn Burnley 2019 þegar Senegalinn var afar óánægður með að Egyptinn hafi ekki gefið á hann. Firmino hefur nú tjáð sig um ríginn milli Manés og Salahs.
„Ég upplifði þetta allt frá fyrstu hendi, gretturnar og líkamstjáninguna, óánægjuna þegar annar þeirra var ósáttur við hinn. Ég fann fyrir því. Ég var tengingin milli þeirra í sóknarspili okkar og í hlutverki sáttasemjara á þessum augnablikum,“ sagði Firmino.
„Fyrir mörgum var þetta rifrildi gegn Burnley það fyrsta og síðasta milli Salahs og Manés. En ég vissi að þetta var búið að vera að byggjast upp frá tímabilinu á undan, 2018-19. Mitt hlutverk var að stilla til friðar. Það höfðu verið smá vandamál milli þeirra áður en þarna gerðist allt á vellinum, fyrir allra augum. Þarna fór lokið af pottinum.“
Að sögn Firminos er Mané nokkuð skapheitur og hann þurfti oft að róa hann niður.
„Mané var ákafari á góðum stundum og slæmum. Hann var sá bráðasti af okkur þremur. Ég var alltaf að tala við hann, gefa honum ráðleggingar og reyna að róa hann. Ég sagði honum að finna frið, spila fyrir liðið og vera rólegur,“ sagði Firmino sem gekk í raðir Al-Ahli í Sádi-Arabíu í sumar eftir átta ár hjá Liverpool.
Mané fór frá Liverpool til Bayern München í fyrra, og þaðan til Al-Nassr, en Salah leikur enn með Rauða hernum.