Eftir 2-1 sigur Arsenal á Manchester City í ensku kvennadeildinni í gær gagnrýndi Gareth Taylor, stjóri City, kollega sinn hjá Arsenal, Jonas Eidevall, um að níðast á fjórða dómaranum á meðan leiknum stóð.
Þeir Eidevall lentu í orðaskaki á meðan leiknum stóð en Taylor segist hafa verið að verja fjórða dómarann, Melissu Burgin.
„Það er alltaf sama sagan með hann því hann er alltaf að atast í og níðast á fjórða dómaranum. Ég var að verja hana þótt það sé ekki í mínum verkahring,“ sagði Taylor eftir leikinn.
Eidevall tjáði sig ekki um samskiptin við Taylor og fjórða dómarann eftir leikinn en Arsenal ku vera ósátt við ummæli stjóra City.
Sænska landsliðskonan Stina Blackstenius skoraði sigurmark Arsenal tveimur mínútum fyrir leikslok þegar hún nýtti sér mistök markvarðar City, Khiöru Keating. Arsenal, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er í 5. sæti ensku deildarinnar en City í 2. sætinu.