Martial var í byrjunarliði United sem tapaði 0-3 fyrir Newcastle á Old Trafford í sextán liða úrslitum deildabikarsins í gær. Ekkert verður því af því að United verji titil sinn í keppninni.
Martial kom til United frá Monaco fyrir níu árum og hefur skorað 89 mörk í 311 leikjum fyrir félagið. Neville finnst ekki mikið þeirrar tölfræði koma.
„Þegar þú heyrir af þessari tölfræði og hugsar að hann sé markaskorari sem kostaði 50-60 milljónir punda og hefur bara skorað 89 mörk á níu árum en við getum samt ekki losnað við hann,“ sagði Neville.
„Við erum ekki nógu harðir. Mistökin sem fótboltadeildin og þeir sem kaupa leikmenn hafa gert eru ótrúleg. Hann [Martial] ætti ekki að byrja leiki í neinni keppni. Við erum með ungan strák, Rasmus Højlund, en þeir þurfa reynslu með honum. Ég vorkenni honum smá.“
United hefur tapað tveimur heimaleikjum í röð með þriggja marka mun og alls tapað átta af fimmtán leikjum sínum á tímabilinu.
Næsti leikur United er gegn Fulham á Craven Cottage í hádeginu á laugardaginn. United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.