United steinlá fyrir Manchester City, 0-3, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var sjöunda tap United í öllum keppnum á tímabilinu.
The Sun greinir frá því að leikmenn United virðist vera farnir að missa trúna á Ten Hag og nokkrar ákvarðanir hans spili þar inn í.
Ten Hag byrjaði til að mynda með réttfætta miðvörðinn Victor Lindelöf í stöðu vinstri bakvarðar gegn City en ekki Sergio Reguilón.
Þá sást Antony hrista hausinn þegar hann kom ekki jafn snemma inn á og hann vonaðist eftir. Brassinn kom inn á undir lok leiks en var pirraður og þótti vera heppinn að vera ekki rekinn af velli fyrir að sparka í City-manninn Jérémy Doku.
Ten Hag lét leikmenn United einnig sitja í búningsklefanum eftir leik og hlusta fagnaðarlæti á leikmanna og stuðningsmanna City. Í viðtölum við fjölmiðla eftir leik sagði hann líka að United gæti aldrei spilað eins og Ajax-liðin sem hann stýrði áður en hann kom til Englands.
Ten Hag tók við United í fyrra. Hann stýrði liðinu til sigurs í deildabikarnum og kom því í úrslit ensku bikarkeppninnar á síðasta tímabili. Þá endaði United í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.