Manchester City gerði góða ferð á Old Trafford í gær og vann öruggan 0-3 sigur á grönnum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Erling Haaland skoraði tvö mörk fyrir Englandsmeistarana og Phil Foden eitt.
Antony byrjaði leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður þegar fjórar mínútur voru eftir.
Brassinn virtist eitthvað illa fyrir kallaður og virtist sparka í Jérémy Doku, leikmann City, eftir að hafa brotið á honum í uppbótartíma. Paul Tierney, dómari leiksins, lét nægja að gefa Antony gula spjaldið. Neville vildi meina að Brassinn hafi verið heppinn að hanga inni á vellinum.
„Antony sparkar í Doku. United er búið að missa hausinn og það byrjar með fyrirliðanum [Bruno Fernandes],“ sagði Neville um atvikið.
„Þetta er fáránlegt og vandræðalegt hjá Antony. Ég hefði bara rekið hann út af. United hafa týnst í seinni hálfleik.“
Antony er nýkominn aftur inn í leikmannahóp United eftir að hafa verið settur til hliðar vegna ásakana um ofbeldi. United keypti Brassann frá Ajax fyrir 82 milljónir punda í fyrra. Hann hefur leikið 53 leiki fyrir United og skorað átta mörk.
United hefur tapað fimm af fyrstu tíu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og er í 8. sæti hennar. City er í 2. sætinu.