Maguire er aftur í náðinni hjá Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, og liðið er líka byrjað að vinna leiki á ný.
Um tíma leit út fyrir það að Maguire yrði seldur í haustglugganum en hann vildi frekar vera áfram og berjast fyrir sæti sínu í liðinu.
Harry Maguire hefur verið í byrjunarliðinu í tveimur síðustu deildarleikjum og þeir hafa báðir unnist. United vann 2-1 sigur á Brentford á heimavelli og 2-1 sigur á Sheffield United á útivelli.
Hann byrjaði einnig í 3-0 sigri á Crystal Palace í enska deildabikarnum. Þessir þrír sigurleikir eru þeir einu sem hann hefur fengið að byrja á leiktíðinni.
Frá því í október í fyrra hefur United unnið fimmtán af sextán leikjum sínum með Maguire í byrjunarliðinu. Það gerir 94 prósent sigurhlutfall.
Í þeim 43 leikjum sem hann hefur ekki byrjað á sama tímabili hefur United liðið aðeins unnið 22 leiki eða aðeins 52 prósent leikjanna.
Það fylgir reyndar sögunni að í þessum leikjum hefur Maguire ekki verið að spila á móti bestu liðunum í deildinni.