Newcastle voru ekki lengi að opna markareiking sinn gegn Crystal Palace en Jacob Murphy kom boltanum í netið strax á 4. mínútu leiksins. Hann lagði svo upp annað mark leiksins á Anthony Gordon áður en Sean Longstaff bætti þriðja markinu við rétt fyrir hálfleiksflaut. Crystal Palace áttu mjög erfitt uppdráttar allan leikinn og komu ekki skoti á markið fyrr en langt var liðið á seinni hálfleikinn. Callum Wilson kórónaði svo sterkan sigur heimamanna með fjórða markinu á 66. mínútu.
Dominic Solanke braut ísinn og tók forystuna fyrir Bournemouth gegn Wolves en Matheus Cunha jafnaði metin í upphafi seinni hálfleiks. Lewis Cook, leikmaður Bournemouth, fékk svo að líta á rautt spjald eftir átök við Hwang Hee-Chan. Þeir rifust eftir harkalega tæklingu þess fyrrnefnda, stungu saman höfðum og Cook ákvað á endanum að skalla Hwang hressilega í andlitið og var rekinn af velli á meðan Hwang fékk að líta gult fyrir sinn þátt í atvikinu.
Hwang gaf svo góða fyrirgjöf á liðsfélaga sinn Kalajdzic sem skoraði sigurmarkið fyrir Wolves á 88. mínútu leiksins. Lokaniðurstaða 1-2 sigur Wolves.
Bryan Mbuemo lagði fyrsta markið upp á Yoane Wissa áður en hann skoraði sjálfur í seinni hálfleik með glæsiskoti rétt fyrir utan teig og tvöfaldaði forystu Brentford gegn Burnley. Burnley fóru svo úr öskunni í eldinn þegar Connor Roberts fékk sitt seinna gula spjald og var rekinn af velli fyrir groddaralega tæklingu á Yoane Wissa.
Manni fleiri tókst Brentford að setja þriðja markið, sem var engu síðra en skot Mbuemo. Boltinn hrökk til Saman Ghoddos sem dempaði hann niður með bringunni og klippti hann svo framhjá markverði Burnley.
Chris Wood var á skotskónum í 2-1 sigri Nottingham Forest gegn Luton. Anthony Elanga lagði bæði mörkin upp fyrir framherjann, gestirnir minnkuðu svo muninn undir lokin með marki frá Chiedozie Ogbene en tókst ekki að sækja stigið.
Úrslit dagsins úr ensku úrvalsdeildinni
Liverpool - Everton 2-0
Man. City - Brighton 2-1
Newcastle - Crystal Palace 4-0
Bournemouth - Wolves 1-2
Brentford - Burnley 2-0
Nott. Forest - Luton 2-1