Formúla 1

Töl­fræði rennur stoðum undir ó­trú­legan við­snúning McLaren

Aron Guðmundsson skrifar
Lando Norris og Oscar Piastri, ökumenn Formúlu 1 liðs McLaren, með verðlaunagripi sína frá Japans-kappakstrinum
Lando Norris og Oscar Piastri, ökumenn Formúlu 1 liðs McLaren, með verðlaunagripi sína frá Japans-kappakstrinum Vísir/Getty

Svo virðist sem For­múlu 1 lið McLaren hafi náð vopnum sínum að nýju.

Byrjunin á tíma­bilinu lofaði ekki góðu hjá þessu sögu­fræga liðið sem hefur yfir að skipa átta heims­meistara­titlum bíla­smiða í For­múlu 1.

McLaren var framan af með einn lé­legasta bílinn á rás­röðinni og náði að­eins að hala inn 17 stigum á fyrstu níu keppnis­helgum tíma­bilsins.

Það voru fáar vís­bendingar á lofti um að tíma­bil þessa breska liðs myndi verða eftir­minni­legt en þrot­laus vinna og fjár­festing í upp­færslu á bíl liðsins er nú farin að skila sér ræki­lega.

Frá síðustu átta keppnis­helgum hefur McLaren náð að hala inn 145 stigum og hefur meðal­stiga­fjöldi liðsins farið úr 2,1 stigi upp í 18,1 stig.

Það hversu langt McLaren er komið á sinni veg­ferð á tíma­bilinu kristallast í góðum árangri liðsins í Japans-kapp­akstrinum um síðast­liðna helgi.

Öku­menn liðsins, Bretinn Lando Norris og Ástralinn Os­car Piastri, enduðu báðir á verð­launa­palli. Nánar til­tekið í öðru og þriðja sæti á eftir ríkjandi heims­meistaranum Max Ver­stappen, öku­manni Red Bull Ra­cing.

„Fram­farirnar hjá liðinu eru ó­trú­legar,“ segir Lando Norris, öku­maður McLaren í kjöl­far keppnis­helgarinnar í Japan. „Ég er yfir mig stoltur af liðinu. Við erum að taka mörg skref fram á hverri einustu keppnis­helgi. Við erum að leggja hart að okkur. Ég er viss um að það muni koma krefjandi tímar aftur en þetta er allt í rétta átt hjá okkur.

McLaren er eitt af þessum stóru liðum úr sögu For­múlu 1 og mun án efa vilja koma sér í þá stöðu að geta barist um heims­meistara­titla á nýjan leik.

Síðasti heims­meistara­titill liðsins kom í flokki öku­manna árið 2008 en þar var það Bretinn Lewis Hamilton sem ók fyrir liðið. Í flokki bíla­smiða varð McLaren síðast heims­meistari árið 1998. Það ár vann liðið tvö­falt með öflugum bíl, sem og öku­mann­steymi skipað þeim Mika Hakkinen og David Coult­hard. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×