Í umfjöllun BBC kemur fram að tugir hafi látist vegna veðursins í Grikklandi, Tyrklandi og í Búlgaríu. Þá hafa þúsundir þurft að flýja heimili sín vegna flóða sem fylgt hafa veðrinu.
Austurrísku hjónin voru í brúðkaupsferð í bænum Potistika á austurströnd Grikklands og höfðu leigt sér gistingu í einbýlishúsi. Eigandi hússins, maður að nafni Thanasis Samaras, segir að hann hafi ráðlagt þeim að flýja húsið og leita ofar í fjallendið en hjónin hafi ákveðið að vera um kyrrt.
„Aðstæðurnar voru skelfilegar. Það er mjög erfitt að ákveða hvað skal gera í svona aðstæðum,“ hefur BBC eftir Samaras. Lík hjónanna hafa fundist og er staðfest að um var að ræða austurríska ríkisborgara, samkvæmt upplýsingum frá austurrískum yfirvöldum.
Vísindamenn hafa varað við því að hnattrænni hlýnun muni fylgja tíðari óveður. Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, hefur lýst því yfir að það sé líkt og landið standi frammi fyrir stríðsástandi á friðartímum. Auk flóðanna hafa miklir skógareldar gert Grikkjum lífið leitt í sumar, sem eru þeir mestu í sögu landsins.