Umræðan

Sam­keppnis­laga­brot skipa­fé­laganna, bóta­á­byrgð og evrópska skaða­bóta­til­skipunin

Eggert B. Ólafsson og Sveinn Andri Sveinsson skrifar

Þann 31. ágúst sl. sektaði Samkeppniseftirlitið (SKE) Samskip hf. um 4,2 milljarða vegna brota á ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005 (skl). Meginrannsóknartímabil SKE tók til áranna 2008 til 2013. Rannsókn SKE leiddi í ljós að á þessu tímbili hefðu Samskip og Eimskip brotið skl. á nær öllum sviðum starfsemi sinnar. Þannig segir í samantekt á bls. 6 í 3.500 blaðsíðna langri ákvörðun SKE að ólögmætt samráð skipafélaganna hafi falist í:

• samráði um breytingar á siglingakerfum og takmörkun flutningsgetu,

• samráði um skiptingu á mörkuðum eftir stærri viðskiptavinum í sjó- og landflutningum (forðast að keppa um stærri viðskiptavini hins)

• samráði um álagningu gjalda og afsláttarkjör í flutningsþjónustu og miðlun á mikilvægum verð og viðskiptaupplýsingum,

• samráð um landflutningaþjónustu og skiptingu á mörkuðum á tilteknum flutningaleiðum á Íslandi,

• samráði um sjóflutninga milli Íslands og annarra landa,

• samráði um skipaafgreiðslu, gagnkvæma leigu eða lán á gámum.

Samkvæmt ákvörðun SKE voru brot Samskipa (og Eimskips) alvarleg og umfangsmikil og náðu yfir langt tímabil, á mörkuðum þar sem þátttakendur samráðsins höfðu yfirburðastöðu. Á tímabilinu voru Samskip og Eimskip samanlagt með um og yfir 90% hlutdeild í sjóflutningum milli Íslands og Evrópu, 100% í sjóflutningum milli Íslands og Norður-Ameríku nær allt tímabilið og um og yfir 75-80% hlutdeild í landflutningum, ef miðað er við landið allt. Fyrirtæki og einstaklingar sem þurftu að kaupa þjónustu af samsærisfyrirtækjunum áttu því erfitt um vik, var nánast ómögulegt að leita til annarra þegar þeim blöskraði verðhækkanir félaganna.

Í íslenskum lögum eru ekki sérstök ákvæði um skaðabótaábyrgð þeirra sem brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga. Um bótaábyrgð er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Skaðabótamál vegna samkeppnislagabrota af þessu tagi eru langt í frá auðsótt.

Í ákvörðuninni er minnt á að samkvæmt 21. gr. skl. sé SKE skylt að beita 1. mgr 53. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) þegar samkeppnisbrot hefur áhrif á viðskipti milli aðildaríkja EES. Augljósari dæmi um áhrif á viðskipti á milli aðildarríkja EES en verðsamráð og samráð um markaðsskiptingu fyrirtækja sem flytja vörur á milli aðildarríkjanna er vart hægt að hugsa sér. Enda var það niðurstaða SKE að umrædd háttsemi hafi hvort hvort tveggja falið í sér brot gegn 10. gr. skl. og 1. mgr 53. gr. EES. Efnisákvæði 53. gr. EES-samningsins eru fyllilega sambærileg ákvæðum 10. og 12. gr. skl., enda sækir löggjöfin íslenska að þessu leyti fyrirmynd sína til evrópsks samkeppnisréttar. Í ákvörðun sinni færir SKE ítarleg rök fyrir því að Samskip hafi með alvarlegum hætti brotið gegn 10. gr. skl. Með vísan til sama rökstuðnings segir SKE að Samskip hafi einnig brotið gegn 53. gr. EES-samningsins (Eimskip hafði viðurkennt sömu brot í sátt við SKE í júní 2021).

Í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins er kveðið á um að allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geti haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningur þessi taki til, séu bannaðir og ósamrýmanlegir framkvæmd EES-samningsins. Dæmi um slíka samninga, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og aðgerðir eru samkvæmt ákvæðinu ákvarðanir um kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti og aðgerðir sem mismuna öðrum viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra.

Í íslenskum lögum eru ekki sérstök ákvæði um skaðabótaábyrgð þeirra sem brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga. Um bótaábyrgð er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Skaðabótamál vegna samkeppnislagabrota af þessu tagi eru langt í frá auðsótt. Verðsamráð, samráð við gerð tilboða og samningar um skiptingu markaða eru þó augljóslega til þess fallnir að hafa áhrif á afkomu fyrirtækja og einstaklinga og valda þeim þar með tjóni. Til að sækja skaðabætur fyrir dómi (SKE úrskurðar ekki um skaðabótaskyldu) þarf tjónþoli hins vegar að leiða að því líkur skv. kröfum réttarfarslaga að hin ólögmæta háttsemi hafi leitt af sér tjón. Takist það, getur hann óskað dómkvaðningar matsmanna til að meta tjón brotaþola, krafist bóta að álitum eða krafist þess fyrir dómi að bótaskylda verði viðurkennd.

Raunhæfur möguleiki tjónþola til sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota að EES-rétti er mikilvæg forsenda skilvirkni samkeppnisreglna lagakerfanna og virkni innri markaðarins. Evrópudómstóllinn hefur staðfest að grafið sé undan áhrifum banns 1. mgr. 101. gr. SSES (sem samsvarar 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins) við samkeppnishamlandi háttsemi ef einkaaðilum er gert óeðlilega erfitt að sækja skaðabætur fyrir tjón sem þeir verða fyrir vegna samninga eða hegðunar sem brýtur í bága við samkeppnisreglur.

EFTA-dómstóllinn hefur staðfest mikilvægi réttarins til að geta sótt skaðabætur fyrir brot á samkeppnisreglum EES-samningsins. Hefur dómstóllinn sagt að slíkur réttur auki virkni samkeppnisreglna EES-samningsins. Því ætti að hvetja til einkaréttarlegara úrræða vegna brota á 53. og 54. gr. samningsins. Íslenska ríkið hefur haldið fram sömu sjónarmiðum fyrir EFTA dómstólnum (sjá mál EFTA- dómstólsins, E-6/17).

Hjá Evrópusambandinu er í gildi tilskipun ráðsins og þingsins nr. 2014/104 þar sem egir: „On certain rules governing actions for damages under national law for infringements of the competition law provisions of the Member States and of the European Union.“ 

Er þessi tilskipun nefnd skaðabótaréttartilskipunin á íslenzku. Með tilskipuninni er mælt fyrir um reglur varðandi skaðabótamál fyrir dómstólum aðildarríkjanna vegna brota á samkeppnisreglum. Markmiðið er að tryggja skilvirkni 101. og 102. gr. EES-samningsins og fulla virkni innri markaðarins fyrir fyrirtæki og neytendur.

Raunhæfur möguleiki tjónþola til sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota að EES-rétti er mikilvæg forsenda skilvirkni samkeppnisreglna lagakerfanna og virkni innri markaðarins.

Meðal þeirra reglna sem tilskipunin mælir fyrir um að aðilarríki verði að tryggja að séu fyrir hendi þegar þau beita skaðabótareglum vegna samkeppnislagabrota eru:

a. Einstaklingar og lögaðilar sem hafi orðið fyrir tjóni vegna brota á samkeppnisreglum verði að geta fengið fullar bætur. Með fullum bótum sé átt við að tjónþoli verði settur eins og samkeppnislagabrotin hafi ekki átt sér stað. Bótarétturinn taki því bæði til beins tjóns og hagnaðarmissis, auk vaxta.

b. Í samræmi við meginregluna um skilvirkni skuli aðildarríkin tryggja að landslög og reglur sem varða beitingu skaðabótakrafna séu ekki þess efnis og sé ekki beitt þannig ógerlegt eða óhóflega erfitt sé að neyta skaðabótaréttar vegna brota á samkeppnis-reglum.

c. Fyrirtæki sem hafa brotið samkeppnisreglur með sameiginlegum aðgerðum séu in solidum ábyrg fyrir því tjóni sem brot þeirra á samkeppnisreglum hefur valdið, þannig að hvert hinna brotlegu fyrirtækja sé skuldbundið til að bæta fyrir allt tjónið og að tjónþoli hafi rétt til að krefja hvert þeirra um fullar bætur þar til hann hefur fengið tjón sitt bætt að fullu.

d. Hvorki sönnunarbyrði fyrir né sönnunamat á umfangi tjóns sé með þeim hætti að í framkvæmd verði í raun ómögulegt eða óhóflega erfitt að sækja bæturnar. Þá skuli löglíkur vera taldar fyrir að samráðsbrot valdi tjóni. Hinn brotlegi eigi rétt á að hrekja að svo hafi verið.

e. Úrskurðir samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins skuli hafa vægi fyrir íslenzkum dómstólum.

Tilskipun 2014/104 hefur ekki formlega verið tekin upp í íslensk lög en í skaðabótamáli sem fyrrum eigendur Kortaþjónustunnar hf. reka gegn íslenzku viðskiptabönkunum og greiðslumiðlunum er á því byggt að við úrlausn þess beri að hafa hliðsjón af efni tilskipunarinnar. Ákvæði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins hefur verið innleitt í íslensk lög sbr. lög nr. 2/1993. Einkaaðili getur þar af leiðandi, með málshöfðun fyrir innlendum dómstól, byggt á ákvæðinu því það er hluti af landsrétti. En jafnframt er það hluti af EES rétti, og þeim réttindum og skyldum sem ákvæðið skapar verður að beita í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EESS.

Það er ekki nóg að íslenskir ráðamenn fordæmi meint samkeppnislagabrot skipafélaganna, heldur þurfa þeir að sýna í verki að þeir taki hagsmuni neytanda og smærri fyrirtækja fram yfir hagsmuni stórfyrirtækjanna sem sífellt gerast brotleg við lög. Það verður helst gert með því eyða óvissu um réttarstöðu tjónþola í samkeppnislagabrotum og innleiða evrópsku skaðabótatilskipunina nr. 2014/104.

Höfundar eru lögmenn og hafa báðir rekið skaðabótamál fyrir dómi vegna brota á samkeppnislögum.




Umræðan

Sjá meira


×