Ensku miðlarnir, þar á meðal BBC, beina margir athyglinni að samskiptum nýja markvarðarins í liði United, André Onana, og miðvarðarins Harry Maguire í leiknum.
Onana hraunaði nefnilega yfir Maguire í byrjun seinni hálfleiks, tveimur mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður, eftir að Dortmund fékk dauðafæri í kjölfar slæmrar sendingar Maguire á Christian Eriksen.
New #ManUtd keeper Andre Onana vented his fury at Harry Maguire during United's Las Vegas defeat against Borussia Dortmund. #BBCFootball
— BBC Sport (@BBCSport) July 31, 2023
BBC segir að þessi 27 ára kamerúnski markvörður sé þekktur fyrir að láta liðsfélagana heyra það þegar svo ber undir, og á því fékk Maguire að kenna eftir að Onana hafði þó varið skot Sebastian Haller úr dauðafæri.
Maguire sleppti því að svara Onana, öfugt við Brandon Williams sem í fyrri hálfleik svaraði Tom Heaton fullum hálsi þegar markvörðurinn virtist kenna Williams um annað mark Dortmund.
Andre Onana screaming at Harry Maguire! pic.twitter.com/cmtsgMussV
— Football Transfers (@Transfersdotcom) July 31, 2023
Mörkin þrjú sem United fékk á sig mætti skrifa á einstaklingsmistök varnarmanna og Williams bar vissulega ábyrgð á fyrsta marki Dortmund, sem Donyell Malen skoraði, en seinna mark Malen kom eftir að Victor Lindelöf hafði spilað boltanum frá sér.
Malen skoraði mörkin með mínútu millibili undir lok fyrri hálfleiks og kom Dortmund í 2-1, eftir að Diogo Dalot kom United yfir.
Antony jafnaði metin fyrir United snemma í seinni hálfleik en Youssoufa Moukoko skoraði svo sigurmark Dortmund, eftir mistök Aarons Wan-Bissaka.
United-menn halda nú heim til Englands og spila næsta vináttuleik gegn franska liðinu Lens á Old Trafford á laugardaginn, og svo gegn Athletic Bilbao í Dublin á sunnudag, áður en United mætir Wolves í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar 14. ágúst.