Fótbolti

Hafnar tilboðum frá Sádi-Arabíu og vill komast til Man Utd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
André Onana vill ólmur komast til Manchester United.
André Onana vill ólmur komast til Manchester United. Richard Sellers/Allstar/Getty Images

Kamerúnski markvörðurinn André Onana er sagður hafa hafnað tilboðum frá Sádi-Arabíu í von um að komast til Manchester United.

Onana, sem í dag er markvörður Inter Milan, hefur verið orðaður við mörg stórlið í sumar og þá helst Manchester United, enda er United í markvarðarleit eftir að samningur David de Gea rann út í síðustu viku.

Markvörðurinn hefur verið ofarlega á óskalista Manchester-liðsins og félagið bauð Inter 39 milljónir punda fyrir kamerúnska markvörðinn, en því tilboði var hins vegar hafnað.

Ef marka má grein 90min.com hefur Onana einnig fengið tilboð frá liðum í Sádi-Arabíu. Leikmönnum hefur streymt í sádiarabísku deildina undanfarna daga og vikur, en Onana á hins vegar að hafa hafnað þeim tilboðum og vill ólmur komast til Manchester United.

Onana kom til Inter fyrir síðasta tímabil og hefur leikið 41 leik fyrir félagið í öllum keppnum. Með liðinu vann hann báðar ítölsku bikarkeppnirnar ásamt því að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu það sem ítalska félagið mátti þola tap gegn Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×