Enski boltinn

Man City staðfestir að Gundogan fari til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilkay Gundogan með Meistaradeildarbikarinn sem var sá þriðji og síðasti sem hann lyfti sem fyrirliði Manchester City í vor.
Ilkay Gundogan með Meistaradeildarbikarinn sem var sá þriðji og síðasti sem hann lyfti sem fyrirliði Manchester City í vor. Getty/Jose Breton

Ilkay Gundogan, fyrirliði Manchester City, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir ensku meistarana.

City hefur nú staðfest að leikmaðurinn yfirgefi félagið þegar samningur hans rennur út í sumar og gangi í framhaldinu til liðs við spænska stórliðið Barcelona.

Gundogan átti magnað tímabil þar sem Manchester City varð aðeins annað enska félagið í sögunni til að vinna þrennuna.

Hann lyfti þremur stærstu bikurunum á sínu síðasta tímabili.

Hinn 32 ára gamli Gundogan var með ellefu mörk og sjö stoðsendingar á leiktíðinni en hann var sérstaklega öflugur á lokasprettinum.

Gundogan skoraði tvennu í tveimur leikjum í röð í deildinni í maí þegar City tryggði sér titilinn og skoraði einnig bæði mörkin í 2-1 sigri á Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar.

City bauð þýska miðjumanninum nýjan samning en fékk betri þriggja ára samning hjá Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×