Handbolti

ÍBV fékk lánaða stúku frá Þorlákshöfn og stefnir í áhorfendamet

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eyjamenn munu fjölmenna í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum í kvöld.
Eyjamenn munu fjölmenna í íþróttamiðstöðina í Vestmannaeyjum í kvöld. Vísir/Anton

Það stefnir allt í að nýtt áhorfendamet verði slegið í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í kvöld þegar ÍBV tekur á móti Haukum í þriðju viðureign liðanna í úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

ÍBV leiðir einvígið 2-0 og Eyjamenn geta því tryggt sér sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í handbolta með sigri í kvöld.

Eins og gefur að skilja er áhuginn fyrir leiknum í Vestmannaeyjum mikill og ljóst er að færri komast að en vilja.

Í samtali við Eyjafréttir.is sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdarstjóri handknattleiksdeildar ÍBV, frá því að félagið hafi brugðið á það ráð að fá lánaða stúku frá vinum sínum í Þorlákshöfn til að koma til móts við handboltaþyrsta eyjamenn,

„Það styttist í að það verði uppselt, við höfum ekki séð svona áhuga áður,“ sagði Vilmar í samtali við Eyjafréttir.

„Við náum að koma um 240 manns aukalega með þessri stúku, þannig að það stefnir allt í fjölmennasta handboltaleik sem farið hefur fram í Vestmannaeyjum.“

Leikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19:15 og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Sérfræðingar Seinni bylgjunnar verða á svæðinu og hefja sína upphitun fyrir leikinn klukkan 18:30 og fara svo yfir allt það helsta að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×