„Það voru rosa mörg tækifæri í þessum leik fyrir okkur. Mér fannst við eiga mjög flotta langa kafla en þeir voru ekki nógu langir og við svolítið spiluðum þetta frá okkur sjálfir á þessum kafla þegar þeir komast inn í leikinn aftur,“ sagði Ásgeir Örn í viðtali við Andra Má Eggertsson strax að leik loknum.
Í stöðunni 21-16 náði ÍBV 14-3 kafla og einfaldlega kafsigldu Hauka. Hvað gerðist eiginlega á þessum kafla?
„Frábær spurning. Við þreytumst aðeins, erum ekki að tækla þetta jafnvel varnarlega þegar við tökum þessar árásir frá þeim. Svo koma tæknifeilar og skotklikk inn í þetta sem hleypa þeim inn í þetta.“
ÍBV breytti í 5:1 vörn á þessum tíma en Ásgeiri fannst það ekki vera ástæðan fyrir þessum slæma kafla Hauka.
„Er þetta ekki á þeim kafla sem þeir fara í 5:1? Þeir gerðu það en mér fannst við eiga sæmileg svör við því,“ sagði Ásgeir Örn að lokum en liðin mætast á nýjan leik að Ásvöllum á þriðjudag.