Handbolti

Teitur og fé­lagar halda í við topp­liðin eftir risa­sigur í Ís­lendinga­slag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu öruggan sigur í kvöld.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu öruggan sigur í kvöld. Frank Molter/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu afar sannfærandi 14 marka sigur er liðið heimsótti Svein Jóhannsson og félaga hans í Minden í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 27-41.

Heimamenn í Minden skoruðu fyrsta mark kvöldsins, en eftir það varð leikurinn algjör einstefna. Flensburg náði fljótt fimm marka forskoti og liðið leiddi með átta mörkum þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikurinn var því hálfgert formsatriði fyrir Flensburg sem náði mest 16 marka forskoti í síðari hálfleik. Liðið vann að lokum öruggan 14 marka sigur, 27-41, þar sem Teitur skoraði eitt mark fyrir gestina, en Sveinn skoraði þrjú fyrir Minden.

Flensburg situr í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 43 stig eftir 29 leiki, fjórum stigum á eftir Kiel, Magdeburg og Füchse Berlin sem öll eru jöfn á toppnum. Minden situr hins vegar í næst neðsta sæti með 12 stig, fimm stigum frá öruggu sæti þegar liðið á fimm leiki eftir.

Þá hafa lærisveinum Rúnars Sigtrygssonar í Leipzig heldur betur fatast flugið eftir góða byrjun undir hans stjórn. Liðið mátti þola fjögurra marka tap gegn Göppingen í kvöld, 34-30, og liðið er nú án sigurs í seinustu átta leikjum. Þar af hefur Leipzig tapað sjö og situr nú 13. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×