The Athletic greinir frá því í dag að Aaron Ramsdale, aðalmarkvörður Arsenal, sé við það að skrifa undir nýjan langtímasamning við félagið.
Ramsdale, sem gekk í raðir Arsenal sumarið 2021, hefur staðið sig frábærlega hjá félaginu og vilja forráðamenn þess verðlauna hann með nýjum samningi.

Núgildandi samningur Ramsdale við Arsenal gildir til ársins 2026 og felur í sér ákvæði þess efnis að hægt sé að framlengja hann enn frekar. Forráðamenn Arsenal vilja hins vegar frekar veita Ramdale nýjan samning.
Þá hefur stjörnuleikmaður Arsenal, hinn 21 árs gamli Bukayo Saka, einnig samþykkt að skrifa undir nýjan samning hjá félaginu.

Saka hefur verið besti leikmaður Arsenal undanfarin ár og voru farnar að berast sögusagnir þess efni að önnur lið væru farin að horfa hýrum augum til hans.
Leikmaðurinn hefur hins vegar ákveðið að semja að nýju við uppeldisfélag sitt en núgildandi samningur hans við félagið á að renna út á næsta ári.
Þá samdi brasilíski sóknarmaðurinn Gabriel Martinelli, sem leikið hefur lykilhlutverk í liði Arsenal á yfirstandandi tímabili, að nýju við félagið fyrr á árinu.

Nýji samningur Martinelli rennur út árið 2028 en þessi 21 árs gamli leikmaður hefur leikið 129 leiki fyrir aðallið Arsenal, skorað 33 mörk og gefið 19 stoðsendingar.
Arsenal eru sem stendur í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir toppliði Manchester City sem á einnig leik til góða á Skytturnar. Arsenal á eftir að leika þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili. Manchester City fjóra.