„Þetta var bara svo gaman. Við hvöttum starfsfólk einmitt til að fanga stemninguna með því að taka sem mest af myndum og birta þær á Workplace. Og til að undirstrika hvað stemningin var góð þá yfirfylltist Workplace-ið okkar!“ segir Edda og hlær.
Í dag og á morgun fjallar Atvinnulífið um hvernig hægt er að kynnast ólíkum störfum innan sama fyrirtækisins og hver ávinningurinn af því getur verið.

Mörg skemmtileg markmið
Hjá Húsasmiðjunni eru um 400 fastráðnir starfsmenn og segir Edda flesta þeirra hafa tekið þátt. Tvö vörumerki til viðbótar tilheyra félaginu en það eru Blómaval og Ískraft sem selur rafmagnsvörur.
„Við erum með mörg útibú og dreifð um allt land þannig að við gerðum þetta þannig að stjórnendurnir á hverjum stað fyrir sig, sáu um að skipuleggja starfaskiptavikuna og við á mannauðsdeildinni komum bara að verkefninu til stuðnings. Við sendum reyndar út skipulag frá einum stjórnanda til allra, sem dæmi um gott skipulag því þessi aðili hafði unnið svo vel í því með sínu fólki,“ segir Edda aðspurð um góð ráð fyrir aðra vinnustaði sem myndu kannski vilja prófa starfaskiptaviku sem þessa.
Edda segir undirbúninginn ekki þurfa að vera langan né flókinn.
Við horfðum á markmiðin frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Til dæmis að fólk gæti betur áttað sig á tækifærum til starfsþróunar innan okkar vinnustaðar.
Ég nefni sem dæmi starfsmenn úr vöruhúsunum okkar sem fóru í starfaskipti á upplýsingatæknisviðið sem sagði þá svolítið um áugasviðið þeirra.
Annar vinkill er síðan að skipta um starf og fara á hinn enda þess sem maður sjálfur starfar við. Ég nefni sem dæmi vefverslunina þar sem vefstjóri og markaðsstjóri fóru og kynntust starfi þess sem vinnur við að taka vörurnar saman fyrir vefversluna.“

Þá segir hún marga starfsmenn í verslunum hafa skipt um starf við einhvern sem vinnur á öðru sviði en það sjálft.
„Við erum auðvitað með svo marga vöruflokka og ólík svið en auðvitað gaman að kynnast fleiri sviðum og vörum hjá fyrirtækinu því þannig lærum við líka að skilja betur starf hvors annars, að bera virðingu fyrir starfi annarra, átta okkur betur á umfangi starfa annarra og svo framvegis.“
Undantekning á þessu voru smærri starfstöðvar eins og á landsbyggðinni.
„Úti á landi er þetta víða öðruvísi því þar eru starfsmenn færri, allir þekkjast og allir eru fyrir löngu búnir að læra að ganga í ólík störf og verkefni miðað við það sem tíðkast í stærri útibúum. En það breytti því þó ekki að margir tóku þátt og stóðu þá kannski fyrir lítilli kynningu eða einhverju skemmtilegu í þessari viku.“

Fyrst og fremst gaman
Aðdragandi starfavikunnar var í rauninni svipað verkefni sem Húsasmiðjan stóð fyrir með sínu starfsfólki fyrir Covid. Þegar heimsfaraldurinn skall á, fóru hugmyndir sem þessar fyrir ofan garð og neðan en eftir Covid var ákveðið að þróa og stækka hugmyndina, stefna á viku viðburð frekar en einn eða tvo daga en áður hafði aðeins starfsfólk skrifstofu farið í önnur störf í verslunum og vöruhúsum.
Edda segir að vika sé þó ekki tilvísun um að fólk hafi skipt um starf í viku eða marga daga. Starfsemin myndi auðvitað ekki þola það.
„Ég er samt rosalega ánægð með að við völdum að vera með þetta sem viku en það sem starfa-vika fól í raun í sér er að fólk hafði svigrúm til að nýta tækifærið og kynnast öðrum störfum á þessari viku sem starfavikan var.“
Sjálf fór Edda í málningadeildina.
„Ég lærði að blanda grunn og málningu en verð nú samt að viðurkenna að ég myndi ekki treysta mér í það verkefni,“ segir Edda og hlær.
Alls kyns útfærslur voru í gangi: Í sumum tilfellum var fólk að færa sig alveg á milli sviða, fór til dæmis af skrifstofunni og í áfyllingu inn í verslun. Í sumum tilfellum var staðið fyrir kynningum á starfi eða deild og svo framvegis.
„Við gerðum þetta þannig að í starfaskiptunum var tekið á móti starfsfólki sem kom í starfaskiptin eins og verið væri að taka á móti nýjum starfsmanni. Starfaskiptin voru því oft nokkurs konar nýliðakynning og á hverjum stað var einhver starfsmaður sem tók á móti þér sem nýliða.“
Edda segir vikuna fyrst og fremst hafa verið ótrúlega skemmtilega og það sé engin spurning í þeirra huga að endurtaka leikinn síðar.
„Enda er tilgangurinn svo margþættur að mínu viti. Við fáum öll flotta innsýn og betri skilning á störfum hvors annars, áttum okkur á því hvað það eru mörg ólík störf innan fyrirtækis sem er stórt að umfangi og með þremur ólíkum vörumerkjum. Starfavikan er líka góð leið til að sýna öllu starfsfólki hvað það er mikilvægt inn í stóru myndinni, við skiptum öll máli í tannhjólinu. Þetta er allt jákvæð atriði til viðbótar við að við eflum vitund okkar og þekkingu, áttum okkur betur á starfsþróunarmöguleikum og sjáum jafnvel ný tækifæri fyrir okkur í starfi innan sama fyrirtækis,“ segir Edda en bætir við:
Fyrst og fremst var þetta bara svo gaman!
Og það var í rauninni stærsta markmiðið líka því það er svo mikilvægt fyrir okkur öll að það sé líka gaman í vinnunni.“