Chelsea hefur nú tapað öllum þremur leikjum sínum eftir að Frank Lampard tók við liðinu út tímabilið. Chelsea er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og svo gott sem úr leik í Meistaradeild Evrópu.
Boehly, sem eignaðist Chelsea fyrir ári, var langt frá því að vera sáttur eftir tapið fyrir Brighton. Hann fór niður í búningsklefa Chelsea ásamt meðeigendum sínum, Behdad Eghbali og Hansjorg Wyss, og þrumaði yfir leikmönnum liðsins eftir að Lampard hafði lokið sér af.
Meðal þess sem Boehly sagði við leikmennina var að frammistaða þeirra hefði verið vandræðaleg, þeir ekki staðið undir væntingum og minnti þá á að hann hefði eytt sex hundruð milljónum punda til að búa til vinningslið.
Næsti leikur Chelsea er gegn Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld. Madrídingar unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli, 2-0.