Íslenskir notendur Paypal fengu tilkynningu um allar færslur yrðu í heilum krónum frá og með föstudeginum 14. apríl í tölvupósti í dag. Vísað var til leiðbeininga Seðlabanka Íslands. Öll helstu greiðslukortakerfi muni skipta yfir í heiltölukerfið.
Lokað verður fyrir greiðslur í íslenskum krónum frá 14. til 18. apríl vegna breytinganna. Paypal segir það gert til þess að liðka fyrir breytingunum og koma í veg fyrir fjársvik eða að notendur tapi fjármunum. Aftur verður opnað fyrir greiðslur í íslenskum krónum 19. apríl en þá verða allar allar færslur með aukastöfum námundaðar að næstu heiltölu.
Frá og með 18. apríl eiga fyrirtæki og söluaðilar sem taka við greiðslu í íslenskum krónum að hætta að senda út kröfur með aukastöfum. Paypal muni þá námunda upphæðirnar.
Heildarfjárhæðir allra krafna og reikninga hafa verið í heilum krónum á Íslandi frá 1. október 2003. Enn lengra er frá því að hætt var að slá auramyntir á Íslandi. Hætt var að gefa út fimm aurinn árið 1985 og tíu og fimmtíu aura myntirnar árið 1990, að því er kemur fram á Vísindavefnum.
Uppfært 13.4. 2023 Seðlabankinn segir tilkynningu tilkomna vegna breytingar sem erlendar kortasamsteypur og íslenskir færsluhirðar taka upp dagana 14.-15. apríl. Ekkert muni breytast gagnvart íslenskum korthöfum. Ekki sé verið að útrýma aurum og einingarverð einstakra vara á Íslandi geti áfram verið tilgreint í aurum þó að heildarfjárhæð kortafærslu sé tilgreint í heilum krónum.