Brendan Rodgers var sagt upp hjá Leicester fyrir skömmu og liðið verið í þjálfaraleit síðan þá. Lengi vel leit út fyrir að Jessie Marsch tæki við en hann gaf forráðamönnum Leicester afsvar í gær.
Nú hefur hins vegar verið tilkynnt að Dean Smith, fyrrum þjálfari Aston Villa, taki við Leicester út tímabilið með þá John Terry og Craig Shakespeare sér til aðstoðar.
Dean Smith var rekinn frá Aston Villa í nóvember árið 2021 og tók strax í kjölfarið við Norwich. Hann var síðan rekinn þaðan í desember síðastliðnum og hefur verið án starfs síðan þá.
Fyrrum landsliðsmaðurinn John Terry verður Smith til aðstoðar en hann var síðast í þjálfarateymi Smith hjá Aston Villa og hefur verið í starfi hjá sínu gamla félagi Chelsea að undanförnu. Þá verður Craig Shakespeare einnig í þjálfarateymi Leicester en hann hefur áður verið knattspyrnustjóri liðsins og var aðstoðarmaður Claudio Ranieri þegar Leicester varð Englandsmeistari.
Samningur Leicester og Smith er út þetta tímabil er liðið er í nítjánda og næst neðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. Leicester tapaði gegn Bournemouth á laugardag en mætir Englandsmeisturum Manchester City um næstu helgi.