Rashford hefur farið á kostum eftir hléið vegna HM í Katar í desember og verið valinn leikmaður mánaðarins bæði í janúar og febrúar, auk þess sem hann var valinn bestur í september síðastliðnum.
Þar með hefur Rashford jafnað met í eigu Salah sem einnig var valinn bestur í ensku úrvalsdeildinni þrjá mánuði á sömu leiktíð, veturinn 2017-18.
Rashford skoraði fjögur mörk í fimm leikjum í febrúar og hefur alls skorað 26 mörk og átt níu stoðsendingar í öllum keppnum á þessari leiktíð.
Fyrir þessa leiktíð hafði Rashford einu sinni verið valinn leikmaður mánaðarins.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, var valinn stjóri febrúarmánaðar en United tók tíu stig úr þeim fjórum deildarleikjum sem liðið spilaði og er í 3. sæti deildarinnar. Ten Hag hafði áður verið valinn stjóri septembermánaðar.
United byrjaði hins vegar marsmánuð á versta tapi sínu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, og raunar frá því fyrir seinni heimsstyrjöldina, þegar liðið tapaði 7-0 fyrir Liverpool á Anfield síðastliðinn sunnudag.