Ákvörðun stjórnvalda felur í sér að skólum í Englandi sé skylt að bjóða jafnan aðgang að íþróttum, þar á meðal fótbolta, og sjá til þess að hið minnsta tvær klukkustundir á viku fari í íþróttaiðkun.
Samkvæmt tölum frá enska knattspyrnusambandinu bjóða aðeins 67% allra skóla, og 41% miðskóla (fyrir 12-16 ára börn), upp á fótbolta jafnt fyrir stelpur og stráka í íþróttatímum.
Við þessa stöðu vildu leikmenn enska kvennalandsliðsins í fótbolta ekki una og leiddi opið bréf sem þær sendu ríkisstjórninni, eftir að hafa orðið Evrópumeistarar á heimavelli í fyrra, til breytinganna sem nú hafa verið gerðar.

Leah Williamson, fyrirliði enska liðsins, sagði landsliðskonurnar hafa viljað marka dýpri spor í sögunni með því að senda bréfið, heldur en með því einu að vinna Evrópumeistaratitilinn. Þær hafi viljað „opna dyrnar“ fyrir ungar stelpur með því að breyta skólaíþróttakerfinu.
„Árangurinn síðasta sumar hefur verið svo mörgum ungum stelpum hvatning til að fylgja eftir ástríðu sinni fyrir fótbolta. Þetta er það sem við viljum skilja eftir okkur, mun lengur en við verðum saman sem lið,“ sagði Williamson við BBC.