Frá fjármálahruni árið 2019 hafa úttektir úr bönkum Líbanon verið verulega takmarkaðar og sérstaklega úttekt á bandarískum dollurum. Hið líbanska pund hefur tapað nánast öllu verðmæti sínu frá 2019. Gjaldmiðillinn er samkvæmt Reuters 98 prósentum verðminni en hann var fyrir fjármálahrunið.
Í dag fæst til að mynda einn dollari fyrir um áttatíu þúsund pund. Í gær var hlutfallið einn á móti sjötíu þúsund.
Bankastarfsmenn hafa verið í verkfalli í tíu daga. Það verkfall hófst eftir að dómari úrskurðaði að bankar gætu ekki sett takmarkanir á það hve mikið af sínum peningum fólk gæti tekði út úr bönkum.
Mótmæli eru tíð í Líbanon og bankaránum og gíslatökum hefur farið fjölgandi á undanförnu. Í einhverjum tilfellum hefur fólk tekið starfsmenn banka í gíslingu með því markmiði að fá að taka út sparifé sitt.
Miðillinn L'Orient Today segir að kveikt hafi verið í minnst sex bönkum í dag og að rúður hafi verið brotnar í fleirum. Þá segir miðillinn að mótmælendur hafi einnig gert atlögu að heimili formanns bankasamtaka Líbanon og reynt að bera eld að húsinu.
#BREAKING: video sent by L'Orient-Le Jour's correspondent shows protestors burning tires in front of Bank Audi in Badaro. This comes after the Lira hit LL80,000 against the dollar. Banks have been on strike since last week pic.twitter.com/QNJGGCeagW
— Wael Taleb (@waeltaleb23) February 16, 2023
Auk fjármálakreppu hafa íbúar Líbanon einnig þurft að eiga við langvarandi stjórnarkreppu. Líbanon hefur einkennst af miklu stjórnleysi á undanförnum árum og er spilling þar mikil. Yfirvöld landsins fengu vilyrði fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir tæpu ári síðan.
Því láni fylgdu þó skilyrði um endurbætur í stjórnkerfi landsins sem hafa aldrei verið framkvæmdar og lánið hefur því ekki verið veitt.