Southampton hefur gengið illa í ensku úrvalsdeildinni í vetur og tapað síðustu fjórum deildarleikjum sínum. Liðið situr í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Í gær tapaði liðið fyrir Wolves á heimavelli sínum, þrátt fyrir að vera einum fleiri frá miðjum fyrri hálfleik en þá var staðan 1-0 Southampton í vil. Þetta var kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum félagsins því í morgun var tilkynnt að Nathan Jones hefði verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri.
#SaintsFC has parted company with Men s First Team Manager Nathan Jones.
— Southampton FC (@SouthamptonFC) February 12, 2023
Jones tók við Southampton í nóvember af Ralph Hassenhuttl og hefur því aðeins verið við stjórnvölinn í þrjá mánuði. Jones náði aðeins að stýra liðinu til sigurs í einum úrvalsdeildarleik og liðið tapaði níu af þeim fjórtán sem Jones stjórnaði í öllum keppnum en Southampton komst í undanúrslit deildabikarsins og er komið áfram í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar.
Í yfirlýsingu Southampton kemur fram að þjálfari aðalliðsins, Ruben Selles, muni stjórna næstu æfingum liðsins og undirbúa það fyrir leikinn gegn Chelsea um næstu helgi.