Þetta fullyrðir íþróttablaðamaðurinn Rob Dawson hjá ESPN. Fyrr í dag var greint frá því að allar ákærur á hendur Mason Greenwood hafi verið felldar niður, rúmu ári eftir að þessi 21 árs gamli leikmaður Manchester United var handtekinn grunaður um tilraun til nauðgunar, líkamsárás og þvingunartilburði.
Greenwood will not be play or train with United until the club have completed their own internal investigation. No timeframe for how long that will last.
— Rob Dawson (@RobDawsonESPN) February 2, 2023
Manchester United sendi svo frá sér stuttorða yfirlýsingu á heimasíðu sinni eftir að mál Greenwoods var fellt niður þar sem kemur fram að félagið taki til greina að mál leikmannsins hafi verið fellt niður, en að félagið muni nú fara í gegnum sitt eigið ferli áður en tekin verði ákvörðun um næstu skref.
Greenwood var ákærður grunaður um brot gegn konu á tímabilinu frá 1. nóvember 2018 til 15. október 2022. Hann var meðal annars sakaður um tilraun til nauðgunar 21. október 2021 og fyrir líkamsárás 12. desember og 31. desember 2021.
Hann var svo handtekinn þann 15. október á síðasta ári áður en honum var sleppt gegn því skilyrði að hann yrði ekki í sambandi við nein vitni. Þar á meðal samþykkti hann að vera ekki í sambandi við konuna sem hin meintu brot beindust gegn. Þá var Greenwood einnig gert að halda til á heimili sínu í Bowdon.