Leeds lenti ekki í teljandi vandræðum með C-deildarlið Accrington Stanley en leikið var á heimavelli síðarnefnda liðsins.
Jack Harrison náði forystunni fyrir Leeds um miðbik fyrri hálfleiks og Junior Firpo og Luis Sinisterra voru á skotskónum í síðari hálfleik og komu úrvalsdeildarliðinu í 0-3 forystu. Heimamenn náðu að klóra í bakkann með marki Leslie Adekoya skömmu fyrir leikslok en lokatölur 1-3 fyrir Leeds.
Leicester þurfti að hafa töluvert meira fyrir hlutunum þegar liðið heimsótti D-deildarlið Walsall. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en strax í upphafi síðari hálfleiks fengu Leicester vítaspyrnu sem Youri Tielemans brenndi af.
Nígeríski sóknarmaðurinn Kelechi Iheanacho kom inn af bekknum hjá Leicester á 63.mínútu og skoraði það sem reyndist eina mark leiksins á 68.mínútu. Leicester þar með komið áfram í 5.umferð ensku bikarkeppninnar ásamt Leeds og Man City.