Með vaxtahækkun Arion banka hafa allir stóru bankarnir þrír hækkað inn- og útlánavexti. Landsbankinn reið á vaðið og hækkaði vexti frá og með 12. desember og Íslandsbanki hækkaði vexti frá og með 19. desember. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig í sex prósent fyrir tæplega einum mánuði.
Í tilkynningu á vef Arion banka segir að breytilegir vextir þegar veittra lána hækki þrjátíu dögum eftir tilkynningu nema yfirdráttalán og innlán sem taki breytingum samdægurs. Öll ný útlán beri nýju vextina.
Breytingar eru eftirfarandi:
Óverðtryggð íbúðalán
- Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka um 0,25 prósentustig og verða 7,84%
- Óverðtryggðir fastir 3 ára íbúðalánavextir eru óbreyttir og eru áfram 7,75%
Kjörvextir
- Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,25 prósentustig.
Yfirdráttur og greiðsludreifing
- Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka um 0,25 prósentustig
Bílalán
- Kjörvextir bílalána hækka um 0,25 prósentustig.
Innlán
- Breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga hækka um allt að 0,35 prósentustig. Vextir veltureikninga hækka um 0,10 prósentustig.